Tekjur tryggingafyrirtækisins Allianz voru 55 milljarðar evra fyrstu sex mánuði ársins 2012. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Allianz. Alls jukust tekjur samstæðunnar alls um 23,2% milli ára og nam hagnaður frá rekstri 4,7 milljörðum evra.

Í tilkynningunni segir að minni afskriftir vegna lána til gríska ríkisins en gert var ráð fyrir hafi haft jákvæð áhrif á uppgjör síðasta ársfjórðungs. Uppgjörið er betra en markaðsaðilar höfðu spáð og hækkuðu hlutabréf fyrirtækisins í verði í kjölfar birtingar.

Eigna- og slysatryggingar Allianz skiluðu rekstrarhagnaði upp á 2,3 milljarða evra en líf- og heilbrigðistryggingar skiluðu 1,6 milljörðum evra í hagnað.

„Umhverfið er krefjandi og mun vera það áfram. Við þurfum að halda sterkri eiginfjárstöðu og lágmarka áhættu til að verja okkur gegn áföllum. Við fylgjumst náið með því sem er að gerast í Evrópu og um allan heim,“ segir Michael Diekman forstjóri Allianz um málið.