Atlantic Petroleum birti í dag uppgjör sitt fyrir árið 2005. Fyrirtækið tapaði rúmlega 102,4 milljónum íslenskra króna, miðað við rúmlega 26,4 milljón króna tap árið 2004, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Tap fjórða ársfjórðungs var meira en gert var ráð fyrir vegna þess að tvö könnunarleyfi sem félagið á voru afskrifuð að fullu á fjórðungnum.

Umsvif félagsins hafa aukist verulega og það er ráðgert að þau aukist enn frekar á árinu, segir greiningardeildin.

Félagið vinnur að því að kanna hugsanlegar olíulindir og undirbúa vinnslu.

Verkefnin eru mislangt á veg komin og er fyrstu olíu að vænta frá svokölluðu Chestnut svæði á síðari hluta ársins 2007 en þetta verður fyrsta olía úr jörðu á vinnslusvæðum félagsins.

Þar á eftir fylgir Ettrick svæðið en stefnt er á fyrstu olíu þaðan í upphafi ársins 2008. Perth svæðið verður líklega einnig tilbúið 2008, en auk þessara svæða vinnur félagið að könnun á svæðunum Brugdan og West Lennox, segir greiningardeildin.