Uppgjör danska tækjaframleiðandans Bang&Olufsen olli dönskum hlutabréfamarkaði talsverðum vonbrigðum og lækkuðu bréf félagsins um 3,48% í dag. Rétt fyrir lokun markaðar voru bréfin seld á genginu 610. Þess má geta að þegar FL Group seldi bréf sín í B&O var gengið í um 700 þannig að segja má að félagið hafi sloppið fyrir horn út úr fjárfestingu sinni.

Svo virðist sem sala á stórum markaðssvæðum eins og Danmörku og Bretlandi hafi valdið vonbrigðum en það sama á reyndar einnig við um  markaðina á Ítalíu og í Bandaríkjunum.

B&O gerir nú ráð fyrir hagnaði upp á 540-570 milljónir danskra króna á yfirstandandi fjárhagsári en áður hefði verið gert ráð fyrir 602 milljóna króna hagnaði. Félagið gerir ráð fyrir 8% vexti sem er talsvert undir fyrri áætlunum um 9,7% vöxt.