Hagnaður bandaríska bankans Citigroup nam 350 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, samanborið við 2,5 milljarða dala hagnað á sama tíma árið 2013. Hagnaður á hlut féll því úr 77 sentum í 6 sent. Sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir því að hagnaðurinn yrði um 9 sent á hlut og veldur uppgjörið því vonbrigðum.

Tekjur bankans á fjórðungnum námu 17,8 milljörðum dala og stóðu því sem næst í stað á milli ára, en sérfræðingar, sem Reuters hafði samband við gerðu ráð fyrir 18,5 milljarða dala tekjum.

Í síðasta mánuði varaði bankinn við því að kostnaður yrði meiri á fjórðungnum, m.a. vegna opinberra rannsókna á meintum brotum bankans. Sætir hann m.a. rannsóknum vegna hugsanlegrar markaðsmisnotkunar og fyrir að hafa ekki komið með nægilegum hætti í veg fyrir peningaþvætti.