Stærsti banki Þýskalands, Deutsche Bank, birti í dag nokkuð jákvætt uppgjör miðað við spár markaðsaðila, að því er fram kemur hjá greiningardeild Kaupþings.

Greiningardeildin segir að þótt hagnaður hafi dregist saman um nær helming milli ára niður í 953 milljónir evra (um 93 milljarðar króna) var það 3,3% yfir miðgildi þess sem spáð hafði verið, samkvæmt Bloomberg.

"Helsti dragbítur hagnaðar var minni umsvif markaðsviðskipta sem og aukinn launakostnaður. Það sem helst kom á óvart var að engar afskriftir voru vegna undirmálslána sem hafa verið rauði þráðurinn í uppgjörum fjármálafyrirtækja upp á síðkastið," segir greiningardeildin.

SEB yfir væntingum

Það var ekki aðeins uppgjör Deutsche Bank sem var óvenju jákvætt, segir greinnigardeildin, því sömu sögu má segja um SEB í Svíþjóð sem skilaði 4,58 milljarða sænskra króna hagnaði (47 milljarðar króna) á síðasta ársfjórðungi en búist var við 3,84 milljarða ágóða.

"Að mestu mátti rekja þetta jákvæða uppgjör til mun hærri hreinna fjármagnsliða en búist var við. Undirmálslánakrísan snerti þó vitanlega rekstur bankans þótt óbeint hafi verið. Tap upp á tæpan milljarð sænskra króna varð vegna afskrifta skuldabréfa. Í því safni var nokkurt magn skuldabréfa gefið út af fjármálafyrirtækjum sem höfðu orðið illa fyrir undirmálslánum," segir greiningardeildin,

Þrátt fyrir góð uppgjör bankanna nægði það ekki til að lyfta brúnum manna á mörkuðum, bendir greiningardeildin á. Lækkaði OMX í Svíþjóð um 2,3% en DAX í Þýskalandi um 2,0% í viðskiptum dagsins.