Hagnaður FL Group á fyrsta ársfjórðungi, sem nam 5,8 milljörðum, var nokkuð undir afkomuspá greiningardeildar Glitnis sem reiknaði með 8,5 milljarða hagnaði.

Spáskekkjuna má rekja til ofmats á tekjum og EBITDA framlegð Sterling. Rekstrartekjur félagsins námu 17,6 milljörðum en greiningardeildin spáði 20 milljörðum og EBITDA var neikvæð um 3,2 milljarða króna en spáin hljóðaði upp á 52 milljón króna hagnað

?Samkvæmt afkomutilkynningu félagsins var afkoma rekstrarfélaganna umfram væntingar en neikvæð afkoma þeirra skýrist af árstíðarbundnum sveiflum og 830 milljón króna einskiptiskostnaði vegna sameiningar Sterling og Maersk Air," segir greiningardeildin.

Fjárfestingastarfsemi

Afkoma af fjárfestingastarfsemi skilaði 10,4 milljarða hagnaði fyrir skatta en greiningardeildin spáði 11,8 milljarða króna hagnaði, ?sem telst vel viðunandi miðað við þá neikvæðu þróun sem átti sér stað á innlenda hlutabréfamarkaðnum á seinnihluta fjórðungsins."

Heildareignir námu 188 milljörðum króna., eigið fé var 77,4 milljarðar króna í lok fjórðungsins og arðsemi eiginfjár nam 34% á ársgrundvelli.

Breytingar

Það má gera ráð fyrir miklum breytingum á rekstri FL Group á komandi vikum, að sögn greiningardeildar: ?Unnið er að skráningu Icelandair Group í Kauphöllina. Óvissa ríkir um þá skráninguna eftir verðlækkanir hlutabréfa síðustu mánuði. Þá hefur hugsanleg sala á Sterling komist í umræðuna. Verði af sölu beggja flugrekstrarfélaganna mun FL Group standa eftir sem fjárfestingarsjóður með áherslu á áhrifafjárfestingar, umbreytingarverkefni og eignastýringu."

Um þriðjungur af hlutabréfaeign FL Group er í erlendum hlutabréfum en um 66% er bundið í Glitni og Kaupþingi banka. ?Verðþróun hlutabréfa íslensku viðskiptabankanna mun því hafa umtalsverð áhrif á afkomu FL Group á næstunni. Til lengri tíma má hinsvegar búast við því að vægi erlendra verkefna í eignasafni félagsins muni vaxa," segir greiningardeildin.