Óvissunni um hvernig reikna beri vexti við leiðréttingar á gengistryggðum lánum, verður ekki eytt nema dómar falli sem skýra þetta betur eða að það komi til lagasetningar. Þetta kom m.a. fram á fundi sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands boðuðu til með fjölmiðlamönnum í morgun.

Tilmæli sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands  sendu fjármálafyrirtækjum vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða segja að í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs skuli miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum. Eða ef verðtrygging er valin lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum og beitt er þegar óvissa ríkir um lánakjör sbr. 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema aðilar semji um annað.

Á fundinum kom einnig fram að dekkstu sviðsmyndir miði við að fjármálastofnanir geti orðið fyrir allt að 100 milljarða tjóni. Eiginfjárhlutfall bankanna nú sé um 16% og þeir hafi viðbragðssjóðir til taks til að mæta áföllum. Unnið sé að greiningu á málinu og reiknað sé með að það geti tekið nokkrar vikur. Hins vegar er reiknað með að meðferð dómstóla sem skorið geta úr um meðferð vaxta í lánauppgjörum geti tekið nokkra mánuði.