Breska lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline birti í gær árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs. Þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu hafi numið 548 milljónum punda fyrir skatta. Er það töluvert minna en á sama tíma í fyrra þegar fyrirtækið skilaði hagnaði upp á 1,4 milljarða punda.

Samt sem áður er niðurstaðan öllu betri en sérfræðingar bjuggust við og hækkaði gengi hlutabréfa fyrirtækisins um 4% við tíðindin.

Hlutabréfin hafa lækkað nokkuð að undanförnu, meðal annars vegna ásakana um mútur í Kína, en fyrirtækið þurfti að greiða sekt upp á hálfan milljarð dollara vegna málsins. Auk þess hafa mörg einkaleyfi fyrirtækisins nýlega runnið út.