Uppgjör Google olli vonbrigðum, þrátt fyrir að hagnaður fjórða ársfjórðungs hafi aukist um 82,4% á milli ára. Þetta kemur fram hjá greiningardeild Landsbankans.

Uppgjörið var birt eftir lokun markaða í gær. Í viðskiptum á eftirmarkaði hafa bréfin lækkað um 12%.

Félagið hagnaðist um 23,3 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi, sem er 82,4% aukning frá því á sama tíma í fyrra . Tekjur jukust um 86% og námu alls 120,2 milljörðum.

Hagnaður á hvern hlut á tímabilinu nam 1,22 dollurum. Að meðaltali væntu greiningaraðilar 1,76 dollara hagnaði á hlut.

Meiri kostnaður, sérstaklega í markaðs- og starfsmannamál, skýrir að mestu muninn á uppgjörinu og væntingum markaðarins, segir greiningardeildin. Einnig var búist við meiri tekjuvexti.