*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 12. september 2021 12:46

Uppgjör hagfelldara Hvalnum en áfrýjun

Innra virði hlutafjár Hvals hf. er nú „verulega hærra“ en samkvæmt þremur dómum sem vörðuðu félagið.

Jóhann Óli Eiðsson
Kristján Loftsson.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Hvals hf. afréð að áfrýja ekki þremur dómum Héraðsdóms Vesturlands, sem vörðuðu mál hluthafa sem kröfðust innlausnar á hlut sínum í félaginu, þar sem innra virði hlutafjár er nú „verulega hærra“ en í maí árið 2018. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi félagsins.

Samkvæmt ársreikningnum, sem spannar rekstrarárið 1. október 2019 til 30. september 2020, námu tekjur Hvals rúmlega 3,6 milljörðum króna og jukust um 1,2 milljarða milli ára. Mestu munaði um aukningu í vaxtatekjum, sem voru 1.545 milljónir og nærri tvöfölduðust milli ára, auk þess að sala hvalaafurða jókst um 419 milljónir og nam rúmum 1,3 milljörðum.

Rekstrargjöld voru að mestu á pari ef undanskilinn er rekstur skipa, stöðvarinnar í Hvalfirði og útflutningstengdur kostnaður, sem ríflega tvöfaldaðist og var tæplega 1,7 milljarðar. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld nam 923 milljónum og endanleg afkoma var 490 milljóna króna hagnaður samanborið við 287 milljónir rekstrarárið á undan.

Eignir í lok rekstrarárs námu 26,8 milljörðum og drógust saman um 365 milljónir. Bréf í hlutdeildarfélögum eru metin á rúma níu milljarða, hækka um tæplega 2,2 milljarða, og þá á félagið verðbréf, í formi hlutdeildarskírteina í innlendum og erlendum sjóðum, sem metin eru á 10,4 milljarða. Þau lækkuðu aftur á móti um 1,2 milljarða milli ára. Eignarhlutir í öðrum félögum, meðal annars Origo, Arion og Marel, voru metnir á 5,4 milljarða en nýverið seldi Hvalur alla hluti sína í Origo fyrir 2,9 milljarða. Eigið fé er jákvætt um 25,2 milljarða en þar af nemur óráðstafað eigið fé 18,9 milljörðum.

Ósammála niðurstöðunni

Í vor var félagið dæmt til að innleysa hluti þriggja hluthafa, sem áttu samanlagt 5,32% hlut í félaginu, en innlausnarvirðið var um 1,3 milljarðar miðað við virði félagsins í maí 2018. Að teknu tilliti til dráttarvaxta, málskostnaðar og frádráttar arðgreiðslna nam fjárhæðin ríflega 1,6 milljörðum.

„Hvalur er ekki sammála forsendum dómanna. Á hinn bóginn, að virtu innra virði Hvals í dag sem er verulega hærra heldur en í maí 2018, er niðurstaðan ekki óhagfelld Hval og hluthöfum félagsins í fjárhagslegu tilliti og á þeim grunni var ákveðið að áfrýja ekki dómunum, án þess að fallist sé á réttmæti og fordæmisgildi þeirra,“ segir í skýringum við ársreikninginn.

Dómarnir hafa þegar verið efndir en samhliða bauð félagið öðrum hluthöfum að kaupa hlut þeirra. Var það gert í vor og tók um einn sjöundi því tilboði. Útgreiðsla vegna þess fór fram á genginu 165 krónur á hlut en virðið samkvæmt dómunum var 156 krónur á hlut.

Litlar birgðir eftir

Messufall varð á hvalveiðum sumarið 2019 og síðan aftur í fyrra og í ár, þá sökum farsóttarinnar. Segir í skýrslu stjórnar að ekki hafi verið hægt að halda til veiða vegna þeirra áhrifa sem sóttvarnaaðgerðir kynnu að hafa á vinnsluna í landi. Það væri einfaldlega „vonlaus staða“ ef smit kæmi upp meðan hráefni væri til vinnslu. Hvalaafurðir fyrir 467 milljónir eru færðar til eignar í efnahagsreikningi en upphæðin nam 2,1 milljarði rekstrarárið á undan. Um er að ræða birgðir af frystum afurðum en mjöl og lýsi eru ekki metin til verðs á uppgjörsdegi.