Sænski tískurisinn H&M hagnaðist um 16,8 milljarða íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsársins. Það er aukning um 21% frá sama tímabili síðasta árs, segir greiningardeild Landsbankans.

Sölutekjur félagins jukust um 20% og námu alls 140,2 milljörðum króna.

Þrátt fyrir góðan vöxt er afkoman undir spám sérfræðinga. Þeir gerðu ráð fyrir hagnaði upp á 17,3 milljarða króna, að meðaltali.

Forsvarsmenn H&M segja uppgjörið vera undir væntingum sökum mikils kulda í Evrópu. Vor- og sumarfatnaður hafi selst óvenju illa miðað við árstíma.

Hlutabréf í H&M lækkuðu um 2,53% í kauphöllinni í Stokkhólmi í dag. Síðastliðna tólf mánuði hafa þau hækkað um 19,8%, þar af um rúm 7% frá áramótum.

H&M er stærsta fataverslunarkeðjan í Evrópu. Félagið rekur tæplega 1.200 verslanir og áætlað er að opna rúmlega 50 til viðbótar á yfirstandandi rekstrarfjórðungi.