Heildarvelta Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi 2008 var 29 milljarðar króna og jókst um 79% frá sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagins til Kauphallarinnar vegna uppgjörs annars ársfjórðungs.

Hagnaður félagsins fyrir skatta og afskriftir var 1,9 milljarðar króna en var 1,3 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.

Þá var hagnaður félagsins eftir skatta var 395 milljónir króna, en var 205 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Meðalspá greiningardeilda bankanna gerði ráð fyrir hagnaði upp á rúmlega 1,2 milljarða króna og er uppgjörið nú því nokkuð yfir þeirri spá.

Eignir félagsins voru 89,8 milljarðar króna í lok júní 2008 samanborið við 66,8 milljarða í lok árs 2007. Eiginfjárhlutfall var 30% í lok júní 2008 en var 37% í ársbyrjun

Í tilkynningunni kemur fram að mikla veltuaukningu má að mestu rekja til komu Travel Service inn í samstæðuna frá 1. apríl 2008 sem og stöðu íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Þá segir jafnframt að viðbrögð við erfiðum ytri rekstrarskilyrðum hafi skilað árangri og áfram verði unnið samkvæmt aðgerðaáætlun til að aðlaga reksturinn að erfiðu efnahagsástandi og háu eldsneytisverði.

Fyrri helmingur ársins 2008

Heildarvelta félagsins var 43 milljarðar króna sem er 53% aukning miðað við sama tíma í fyrra.

Þá nam hagnaður af sölu eigna 97 milljónum króna á tímabilinu, en á sama tímabili í fyrra var 1,3 milljarða króna hagnaður af sölu eigna.

Handbært fé frá rekstri var 7,6 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins 2008 en var 3,6 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.

Hagnaður félagsins fyrir skatta og afskriftir var 998 milljónir króna á fyrri helmingi ársins en var 1,2 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.

Tap á fyrri helmingi ársins 2008 var 1,3 milljarðar króna en var 1 milljarður á sama tíma í fyrra.