Hagnaður Kaupþings banka nam 35,4 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi sem er undir væntingum greiningardeildar Glitnis en hún spáði bankanum 39,3 milljarða króna hagnaði á fjórðungnum.

?Reyndar ofmátum við verulega skattfrestunaráhrif mikil gengishagnaðar á tímabilinu þannig að frávik rekstrarliða voru ekki eins mikil og virðist við fyrstu sýn. Hreinar vaxtatekjur námu 12,7 milljörðum króna og voru í takti við spá. Gengishagnaður nam 37,1 milljarðar króna og var einnig í rakti við spá. Hins vegar voru hreinar þóknunartekjur talsvert lægri en greining gerði ráð fyrir," segir greiningardeildin en þær námu 7,6 milljörðum króna en spáin hljóðaði upp á 9,4%.

?Fyrirtækjaráðgjöf bankans skilaði 1,3 milljörðum króna í þóknunartekjur en það er verulega undir því sem verið hefur og nokkuð á skjön við það sem stjórnendur bankans gáfu í skyn fyrr í sumar út frá verkefnastöðu afkomusviðsins.

Að sögn forstjóra Kaupþings banka er þó að vænta mun hærri þóknanatekna á fjórða ársfjórðungi þar sem að bankinn lauk tveimur stórum verkefnum í október. Aukin umsvif þóknanatengdrar starfsemi bankans endurspeglast einnig í að þóknunartekjur Bankasviðs og Markaðsviðskipta jukust frá öðrum ársfjórðungi en þriðji ársfjórðungur er jafnan slakari en aðrir," segir greiningardeildin.

Virðisrýrnun var töluvert hærri en reiknað var með á fjórðungnum. ?Bankinn færði eitt sambankalán niður um 800 milljón króna en þar sem að virðisrýrnun útlána nam samtals 1,5 milljörðum króna endurspeglast að gæði útlána bankans teljast mjög góð sem stendur.

Greining gerði ráð fyrir 1 milljarði króna virðisrýrnun á tímabilinu. Þá afskrifaði bankinn viðskiptavild tengda eignastýringu Singer&Friedlander um 1,1 milljarð króna vegna brotthvarfs lykilstarfsmanna en ekki var reiknað með þeim áhrifum í afkomuspánni," segir greiningardeildin.

Hún segir að útlán til viðskiptamanna hafi aukist um rúmlega 5% á þriðja ársfjórðungi (á föstu gjaldmiðlagengi).

?Stjórnendur sjá jákvæða þróun framundan í hreinum vaxtatekjum en vaxtamunur kann þó að minnka eitthvað. Bankinn hefur minnkað hlutfallslega markaðsáhættu sína í hlutabréfum og benda stjórnendur á að sveiflur á gengismun verði mun minni horft fram á veginn.

Þá er í skoðun að sækja á ný lánsfjármagn á mörkuðum í Evrópu enda hefur áhættumat skuldabréfafjárfesta á bankanum breyst til batnaðar að undaförnu. Yfirtökur á bönkum með háa innlánafjármögnun er á dagskránni enda markmið að draga úr vægi lántöku á skuldabréfamörkuðum. Á heildina litið er uppgjörið vel viðunandi ef horft er fram hjá þóknunartekjum á tímabilinu," segir greiningardeildin.