Þríhliða lausn á þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg er í augsýn samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kaup Seðlabanka Íslands, fyrir hönd ríkissjóðs, á íslenskum skuldabréfum í eigu Seðlabankans í Lúxemborg er hluti af því. Annar hluti snýr að útgreiðslu innstæðna að fullu eftir skuldajöfnun. Í þriðja hlutanum felst að Glitnir í Lúxemborg tekur um 70% af öllum lánum Landsbankans í stýringu.

Uppgjör á þrotabúum Kaupþings og Glitnis þar í landi hefur gengið mun greiðlegar fyrir sig á meðan allt hefur staðið fast í Landsbankanum undir stjórn Yvette Hamilius skiptastjóra. Brynhildur Sverrisdóttir, sem hefur verið í forsvari fyrir þá aðila sem geta ekki nálgast innstæður í Landsbankanum í Lúx, segir að ekkert hafi verið haft samband við hana varðandi þessa lausn. Hún viti ekki hvort þetta samkomulag sé að ganga í gegn.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á fundi með blaðamönnum í gær að samningurinn við kollega sinn ytra, Yves Mersch, greiði fyrir heildarsamkomulagi um uppgjör á Landsbankanum. Að öðru leyti hefði Seðlabanki Íslands ekki aðkomu að því máli.

____________________________________________

Nánar er fjallað um uppgjör Landsbankans í Lúxemborg í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.