Fjármálaeftirlitið (FME) hefur veitt skilanefndum gömlu bankanna og stjórnum nýju bankanna frest til 17. júlí n.k. til að ráðstafa eignum og skuldum milli nýju og gömlu bankanna.

FME tilkynnti um ákvörðun sína í dag. Málavextir eru þeir að þegar FME tók yfir rekstur bankanna í október s.l. var ákveðið að gefnir yrðu 90 daga til að óháðir aðilar gætu farið yfir eignasafn bankanna og skipt því á milli nýju- og gömlu bankanna.

Sú vinna hefur tafist sem kunnugt er og hefur FME nú ákveðið að fyrri ákvörðun sín hafi verið ófullnægjandi eða byggðá röngum upplýsingum um málsatvik.

Þetta er í fimmta sinn sem FME breytir ákvörðun sinni um ráðstöfun eigna og skulda milli Kaupþings og Nýja Kaupþings. Í tilfelli Glitnis og Nýja Glitnis (nú Íslandsbanka) er þetta í sjötta sinn sem ákvörðuninni er breytt en í tilfelli Landsbankans og Nýja Landsbankans (nú NBI) er þetta í sjöunda sinn.