Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley lækkaði um 42% á fyrsta ársfjórðungi eftir afskriftir upp á 2,3 milljarða dala. Tap bankans er þó minna en gert hafði verið ráð fyrir.

Bankinn hagnaðist um 1,55 milljarð Bandaríkjadala eða 1,45 dali á hlut á ársfjórðungnum. Tekjur bankans námu 8,3 milljarði dala. Greiningadeildir vestanhafs höfðu gert ráð fyrir 1,03 dala hagnaði á hlut og 7,3 milljarða dala tekjum samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Morgan Stanley hækkaði um 18% á mörkuðum í gær sem er að sögn Bloomberg mesta hækkun bankans á einum degi í yfir áratug. Fjárfestar hafa brugðist vel við uppgjörinu og hefur félagið hækkað um 4% fyrir opnun markaða að sögn Bloomberg.