Uppgjör Mosaic Fashions var undir væntingum greiningardeildar Glitnis en félagið birti uppgjör sitt fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í gær.

Tekjur félagsins námu 98,4 milljónum punda (13,6 milljarða króna) en spáin hljóðaði upp á 110 milljón pund (15,2 milljarðar króna). EBITDA var 10,3 milljón pund (1,4 milljarðar króna) en greiningardeild Glitnis bjóst við EBITDA upp á 14,3 milljón pund (2 milljarðar króna) og hagnaður nam 800 þúsund pund (111 milljónir króna) en spá greiningardeildar var 4,6 milljónir punda (637 milljónir króna).

?Ástæðan fyrir lágum tekjuvexti hjá félaginu er dræm sala í Bretlandi. Söluaukning utan Bretlands nam 33% frá sama tímabili á síðasta fjárhagsári en 11% hjá samstæðunni í heild. Sökum lágra tekna, var EBITDA framlegð talsvert undir væntingum því fastur kostnaður reyndist hlutfallslega hár. Þannig var dreifingar-og stjórnunarkostnaður hlutfallslega hærri en gera mátti ráð fyrir, miðað við eðlilegan rekstur félagsins undanfarna fjórðunga," segir greiningardeildin.

Mosaic Fashions fjölgaði verslunum úr 709 á síðasta fjórðungi í 836 við lok fjórðungsins nú og nemur aukningin 16,3%. ?Velta á hverja verslun lækkar úr 0,52 milljón punda í 0,48 milljón punda miðað við fjölda verslana í lok fjórðunganna. Ástæða lækkunarinnar var slakur fjórðungur hjá Oasis en í fjórðungnum varð að grípa til verðlækkana og drógust tekjur verslananna saman um 3% samanborið við fyrsta ársfjórðung á síðasta fjárhagsári," segir greiningardeildin.