*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Erlent 28. júlí 2021 07:02

Uppgjör netrisanna umfram spár

Sala á iPhone-símum jókst um 50% milli ára og nam nærri 40 milljörðum dala á síðasta ársfjórðungi.

Ritstjórn
Tim Cook, forstjóri Apple, Satya Nadella, forstjóri Microsoft, og Sundar Pichai, forstjóri Google.
epa

Apple, Microsoft og Alphabet, móðurfélag Google, skiluðu öll uppgjöri í gærkvöldi fyrir tímabilið apríl-júní. Afkoma og tekjur netrisanna þriggja voru betri en greiningaraðilar á Wall Street höfðu spáð fyrir um, að því er kemur fram í frétt Financial Times

Afkoma Apple á síðasta fjórðungi fjárhagsársins, sem lauk 26. júní, nærri tvöfaldaðist milli ára og nam 21,7 milljörðum dala, eða um 2.740 milljörðum króna. Tekjur Apple jukust alls um 36% milli ára og námu 81,4 milljörðum dala. Munaði þar helst um að sala á iPhone-símunum jókst um 50%. 

Sjá einnig: Apple biður birgja að gefa í

Árshækkunin var ekki jafn mikil og á fyrstu þremur mánuðum ársins en var engu að síður töluvert yfir spám greiningaraðila. Tekjuaukning á fjórðungnum sundurliðuð eftir vöru- og þjónustuflokkum var eftirfarandi: 

  • Sala á iPhone jókst um 49,8% - úr 26,4 milljörðum í 39,6 milljarða dala. 
  • Sala á Mac-tölvum jókst um 16,4% - úr 7,1 milljörðum í 8,2 milljarða dala. 
  • Sala á iPad jókst um 12,0% - úr 6,6 milljörðum í 7,4 milljarða dala.
  • Sala á aukahlutum, sem inniheldur m.a. Apple Watch, jókst um 36,1% - úr 6,5 milljörðum í 8,8 milljarða dala. 
  • Sala á þjónustu jókst um 32,9% - úr 13,2 milljörðum í 17,5 milljarða dala. 

Azure, LinkedIn og Dynamics skína hjá Microsoft

Microsoft hagnaðist um 46,2 milljarða dala, samanborið við 44,2 milljarða árið áður. Tæknifyrirtækið endaði fjárhagsár sitt með 21% tekjuaukningu á síðasta ársfjórðungi en tekjurnar námu alls 46 milljörðum dala.

Þar stóðu upp úr Azure-skýjaþjónustan, auglýsingar á LinkedIn og Dynamics-lausnirnar, en þessar þrjár rekstrareiningar skiluðu allar um helmingi meiri tekjum en á sama tíma í fyrra.  

Þefalt meiri hagnaður hjá Alphabet

Hagnaður Alphabet, móðurfélags Apple, nam 18,5 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi og var nærri þrefalt hærri en á síðasta ári, þegar fyrirtæki drógu almennt úr auglýsingagjöldum sínum vegna erfiðleika í upphafi Covid-faraldursins. Afkoma Google var um 10% yfir spám greiningaraðila. 

Auglýsingatekjur Apple jukust um 69% milli ára og námu 61,9 milljörðum dala. Þar af nam sala á auglýsingum á Youtube sjö milljörðum dala, sem er um 80% aukning frá fyrra ári. Alphabet sagði að fyrirtækið hefð aldrei áður greitt jafn mikið til myndbandsframleiðenda á vettvanginum og á þessum ársfjórðungi. 

Greinendur höfðu gert ráð fyrir meiri tekjum hjá skýjaþjónustu Google vegna aukinnar fjarvinnu í faraldrinum. Tekjur af þeirri þjónustu jukust um 50% milli ára og námu 4,6 milljörðum dala en skýjaþjónustan var þó rekin með 591 milljóna dala rekstrartapi. 

Hlutabréfaverð Google hefur hækkað um 3,3% á eftirmarkaði en gengið hafði lækkað um 1,6% áður en uppgjörið var birt eftir lokun markaða í gær. 

Stikkorð: Microsoft Apple Google iPhone Alphabet