Rekstrartölur fasteignafélagsins Regins eru nokkurn vegin í takt við spá IFS Greiningar. Fram kom í uppgjöri fasteignafélagsins sem birt var í gær að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 397 milljónum króna samanborið við 243 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir rúmlega 63% meiri hagnaði á milli ára.

Gengi hlutabréfa Regins hefur lækkað um tæp 1,9% í 49 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni.

Fram kemur í uppgjöri Regins að rekstrartekjur námu 1.031 milljóna króna á fjórðungnum borið saman við 882 milljóna króna tekjur í fyrra. IFS Greining bendir á að tekjur hafi verið nokkru lægri en spá hafi gert ráð fyrir, reyndar ekki verið lægri síðan á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Þá er bent á í umfjöllun IFS Greiningar að aðrir reksatrarliðir Regins reyndust svipaðir og spá gerði ráð fyrir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir nam 619 milljónum króna, sem var 18% hærri en í fyrra en samt lægri en þrjá síðustu fjórðunga. Þá var rekstrarhagnaður 883 milljónir króna sem var lægra en alla fjórðunga í fyrra utan annan ársfjórðung.

Í umfjöllun IFS Greiningar segir orðrétt:

„Stjórnendur félagsins segja þó í kynningu afkomuna góða og í samræmi við áætlun. Horfur séu góðar og enn kauptækifæri á markaðnum. Þeir kynna nú uppfærslu á rekstrarspá fyrir 2014 í ljósi innkomu Klasa frá 1. maí. Gera nú ráð fyrir að leigutekjur aukist um 24% á árinu á áætluðu meðalverðlagi ársins, EBITDA/leigutekju hlutfallið verði 73%, stjórnunarkostnaður 7% af sama og rekstrarkostnaður fjárfestingareigna 20%. Er þetta lækkun úr 30% aukningu leigutekna og 74% EBITDA hlutfalli áður en síðastnefndu liðirnir eru óbreyttir.“