Handbært fé frá rekstri hjá ríkissjóði var neikvætt um 53,4 milljarða króna í fyrra, samkvæmt nýbirtu greiðsluuppgjöri. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 73,7 milljarða króna á árinu 2010. Tekjur jukust um 6,3 milljarða og gjöld drógust saman um 5,5 milljarða. Í tilkynningu á vefsíðu fjármálaráðuneytisins er þetta betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum. Þar var gert ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 73,2 milljarða króna.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 468,1 milljarði árið 2011, sem er 1,4% aukning frá fyrra ári. Tekjuskattur einstaklinga skilaði 92,6 milljarða tekjur og er 1,1 milljarði yfir áætlun. Innheimta eignaskatta jókst um 14,7% á milli ára og nam 10,6 milljörðum. Það er 0,4 milljörðum undir áætlun. „Aukninguna má að mestu rekja til meiri tekna af auðlegðarskatti sem skilaði 6,0 ma.kr. árið 2011 samanborið við 3,5 ma.kr. árið áður, fyrst og fremst vegna tekna af viðbótarálagningu á hlutabréfaeign/eigið fé einstaklinga í fyrirtækjum,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að áhrif kjarasamninga á vinnumarkaði, sem tóku gildi um mitt ár, höfðu meiri a´hrif en gert var ráð fyrir en þeir höfðu í för með sér meiri launahækkanir en búist hafði verið við.

Greidd gjöld ríkissjóðs námu 525,5 milljörðum og drógust saman um 5,5 milljarða milli ára. Vaxtagjöld drógust saman um 9,1 milljarð. „Útgjöld til efnahags- og atvinnumála drógust saman milli ára um 4,4 ma.kr. og voru jafnframt 4,6 ma.kr. innan heimilda tímabilsins. Þar vegur þyngst að ýmsar framkvæmdir hafa farið hægar af stað en gert var ráð fyrir,“ segir á vef ráðuneytisins.

Tilkynning og greiðsluafkoma ríkissjóðs.