Stærsti banki Noregs, DnB NOR, hefur birt uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung, fyrstur norrænna banka. Hagnaður dróst saman um 1% og nam 3,3 milljörðum norskra króna sem er yfir væntingum. „Meginástæður samdráttarins eru aukinn kostnaður og útlánatap,“ segir greiningardeild Glitnis.

Kostnaður jókst um 14% og útlánatap nánast tvöfaldaðist á milli ára. Gengi bankans hækkaði um 1,3% í gær. Á sama tíma lækkaði norska vísitalan OBX um 1,9%, samkvæmt upplýsingum frá Euroland. Sérfræðingur Svenska Handelsbanken segir við Bloomberg að helsti dragbítur uppgjörsins sé kostnaðarhliðin og vaxtatekjur. Þrátt fyrir að uppgjörið í heild var betri en vonast var til, segir sérfræðingurinn að drifkraftur þess sé ekki jafn mikið gleðiefni: Þá einna helst tekjur af verðbréfaviðskiptum.

„Aukinn kostnaður stafar meðal annars af útrás bankans, en hann hefur ráðið yfir 900 nýja starfsmenn utan Noregs undanfarið ár með tilheyrandi kostnaði. Þá stendur bankinn einnig frammi fyrir auknum fjármagnskostnaði í kjölfar samdráttar í hagvexti og lánakrísunnar. Enn fremur jukust hreinar vaxtatekjur um 19%,“ segir greiningardeildin.