Hagnaður Marel jókst um 28% á milli ára og tekjurnar um 7%.  Félagið skoðar nú skráningu í erlendri kauphöll. Stjórn Marel mun leggja til að greiddar verði 29 milljónir evra, um 3,6 milljarðar króna, í arð til hluthafa. Ellefu starfsmenn fá kauprétt. Aðalfundur félagsins verður haldinn 6. mars.

Forsvarsmenn Marel hafa staðfest að nú sé verið að kanna möguleika á skráningu félagsins í kauphöll erlendis. Mun félagið leita liðsinnis óháðra alþjóðlegra ráðgjafa við þá vinnu og greiningu á helstu skráningarkostum. Þetta kom fram þegar uppgjör vegna ársins 2017 var kynnt í síðustu viku. Eru þetta mikil tíðindi því Marel hefur verið skráð í íslenskri kauphöll frá árinu 1992. Félagið er í dag það verðmætasta í íslensku kauphöllinni en markaðsvirði þess er um 254 milljarðar króna.

Tekjur Marel námu 1.038 milljónum evra í fyrra eða um 125 milljörðum króna og er þá miðað er við að meðalgengi krónunnar gagnvart evru hafi verið 120,5 árið 2017. Til samanburðar námu tekjurnar tæplega 970 milljónum evra árið 2016. Tekjurnar jukust því um 7% á milli ára. Tekjur á 4. ársfjórðungi jukust um tæplega 18% á milli ára. Á 4. ársfjórðungi í fyrra námu þær tæplega 295 milljónum evra samanborið við 250 milljónir á sama tímabili árið 2016.

Yfir væntingum

Marel skilaði tæplega 97 milljóna evra hagnaði í fyrra, sem eru tæplega 12 milljarðar króna. Árið 2016 nam hagnaðurinn tæplega 76 milljónum evra. Aukningin milli ára nemur um 28%. Afkoman á 4. ársfjórðungi var jákvæð um 33,7 milljónir evra samanborið við 22,5 milljónir á sama tímabili 2016. Hagnaðurinn jókst því um rétt tæplega 50% á milli þessara tveggja ársfjórðunga.

Uppgjörið var yfir væntingum markaðarins segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

„Tekjuvöxturinn var mikill og afkoman í alifuglahlutanum var enn betri en maður átti von á," segir Stefán Broddi. „Mótteknar pantanir, sem gefa til kynna væntingar um framtíðartekjur, voru kannski hóflegri en áður. Það vegur aðeins á móti þessu góða uppgjöri og sýnir að það er aðeins að hægja á vextinum. Að því sögðu eru horfur á að 2018 verði mjög gott ár fyrir Marel."

29 milljónir evra í arð

Stjórn Marel mun leggja til á aðalfundi félagsins þann 6. mars að hluthafar fái greiddan arð vegna rekstrarársins 2017, sem nemur 4,19 evru sentum á hlut. Miðað við útistandandi hluti um síðustu áramót jafngildir þetta því að um 29 milljónir evra verða greiddar í arð til hluthafa eða um 30% af hagnaði ársins 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .