Markaðsaðilar virðast taka vel í árshlutauppgjör Marels sem birtist í gærkvöldi, en gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur hækkað um 1,5% í 541 milljóna króna veltu það sem af er degi.

Hagnaður fyrirtækisins nam 19,5 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi og hækkaði verulega á milli ára, en hann nam 0,8 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins námu 218,3 milljónum evra og hækkuðu frá 169,8 milljónum evra á síðasta ári.

Þá kom fram í uppgjörinu að búast megi við að tekjur á þriðja ársfjórðungi verði lægri en í síðasta vegna árstíðabundinna áhrifa og tímasetningu á afhendingu búnaðar til viðskiptavina. Heilt yfir séu markaðsastæður þó góðar.