*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 9. febrúar 2019 14:05

Uppgjörið í takt við væntingar

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að uppgjör síðasta árs hafi verið gott og í takt við væntingar.

Sveinn Ólafur Melsted
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir ársuppgjör fyrir árið 2018 gott og að ánægja ríki með það innan fyrirtækisins. Útkoman sé í takt við það sem reiknað var með og að ekkert í uppgjörinu hafi komið á óvart. Að hans sögn er góður framgangur á öllum mörkuðum fyrirtækisins.

„Allir liðir fjárhagsáætlunarinnar stóðust í ár og söluvöxtur í stoðtækjum var yfir áætluðum markaðsvexti þriðja árið í röð. Söluvöxtinn má aðallega rekja til sölu á hátæknivörum sem gengur vel í báðum vöruflokkum. Vöxtur í löndum sem teljast til nýmarkaðsríkja var einnig góður. Rekstrarhagnaður félagsins á árinu jókst með aukinni sölu á hátæknivörum og ávinningi af verkefnum ætluðum til að auka hagkvæmni í rekstri," segir Jón.

Eins og fyrr hefur komið fram jókst hagnaður Össurar um 38%. Jón segir að fyrrnefnd kaup félagsins á fjórum fyrirtækjum sé stærsta ástæða þess að hagnaðurinn hafi aukist þetta mikið.

„Við keyptum fjögur fyrirtæki á síðasta ársfjórðungi, en  við erum búin að eiga minnihluta í sumum af þessum fyrirtækjum í nokkuð langan tíma. Svo þegar við kaupum eigendurna út þá eru fyrirtækin orðin mun verðmætari en þau voru þegar við keyptum okkur inn í þau á sínum tíma. Því varð þarna til einskiptishagnaður. En það sem skiptir okkur mestu máli er það að við erum að bæta reksturinn ár frá ári."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Össur uppgjör