Núverandi peningastefna varð gjaldþrota á árinu 2008 og hefur uppgjör hennar ekki enn farið fram. Hann segir að á einhverjum tíma hljóta landsmenn að þurfa að ræða framtíð sína í peningamálum, og horfast í augu við valkosti sem eru fyrir hendi. Í hans huga er ljóst að myntbandalag sé heppilegasti kosturinn.

Viðskiptablaðið leitaði til fimm einstaklinga og spurði um sýn þeirra á núverandi peningastefnu og framtíðarfyrirkomulag hennar. Beðið var um skorinorð svör.

Svör Ásgeirs:

1. Telur þú, og þá hvernig, að endurskoða þurfi peningastefnuna innan tólf mánaða?

Hrunið 2008 var að jafn miklu leyti gjaldþrot íslenskrar peningastefnu og gjaldþrot íslenskra fjármálastofnana. Uppgjörið við peningastefnuna hefur hins vegar ekki enn farið fram og hún er á milli vita sem stendur. Á einhverjum tíma hljóta landsmenn að þurfa að ræða framtíð sína í peningamálum og horfast í augu við valkosti sem eru fyrir hendi. Ljóst er einnig að endurskoða þarf starfshætti og markmið Seðlabankans en til að mynda er einkennilegt að seðlabankastjóri og tveir undirmenn hans hafi meirihluta í peningastefnunefndinni. Sú endurskoðun mun þó taka lengri tíma en eitt ár.

2. Hvaða framtíðarfyrirkomulag á gjaldeyrismálum telur þú heppilegast og hvers vegna?

Sagan sýnir að fastgengi hefur hentað landsmönnum best en árin 2001-2008 eru einstæð í hagsögu landsins sem eini tíminn sem krónan hefur flotið á frjálsum markaði ef stutt tímabil árin 1921-22 er frátalið. Það eru tvær leiðir að fastgengi; upptaka evru í myntbandalagi eða fastgengi með ek. myntráði. Það er ljóst í mínum huga að myntbandalag er heppilegasti kosturinn en hann er vitaskuld skilyrtur við ESB aðild. Að öðrum kosti ætti að huga að skipun myntráðs fyrir krónuna.

Nánar er fjallað um málið í úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.