Uppgjör fyrirtækja í Kauphöll Íslands fyrir fyrsta ársfjórðung 2006 byrja að berast í vikunni eins og rakið er í Morgunkorni Glitnis. Nýherji og Mosaic Fashions birta uppgjör á miðvikudaginn, 26. apríl. Á fimmtudaginn munu KB Banki, Bakkavör og Straumur birta uppgjör.

Í afkomuspá sem gefin var út þann 7. apríl birti Glitnir spár fyrir fyrsta og annan ársfjórðung ársins ásamt spá um afkomu fyrir árið í heild. Á fyrsta ársfjórðungi gera þeir ráð fyrir að KB Banki og Straumur hagnist um ríflega 14 milljarða króna hvor um sig en að Bakkavör skili um 5 milljónum punda í hagnað. Mosaic Fashions spá þeir 5,8 milljóna punda hagnaði á fjórða ársfjórðungi síðasta fjárhagsárs.

Í næstu viku munu birtingar á uppgjörum halda áfram en þá munu Landsbankinn, Actavis, Glitnir, Vinnslustöðin og Kögun birta uppgjör sín. Á heildina litið gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir góðri afkomu hjá flestum félaganna á fyrsta ársfjórðungi sem og fyrir árið í heild.