Hæstiréttur Íslands hefur fallist á málsskotsbeiðni íslenska ríkisins í máli sem varðar uppgreiðsluþóknun lántaka til Íbúðarlánasjóðs. Sú niðurstaða þýðir að málið gengur beint til Hæstaréttar og þarf ekki að fara fyrir Landsrétt. Er það í fyrsta sinn frá stofnun millidómsstigsins sem þessi heimild einkamálalaganna er brúkuð.

Um mánaðarmótin nóvember desember síðasta árs var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem uppgreiðsluþóknun sjóðsins var dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins þýddi að ÍL-sjóður, sem tók við réttindum og skyldum hins gamla Íbúðalánasjóðs, hefði þurft að endurgreiða lántakendum sjóðsins minnst 5,2 milljarða króna í þegar innheimt uppgreiðslugjald. Því til viðbótar voru um 3 milljarðar króna útistandandi í mögulegum uppgreiðslugjöldun útistandandi lána.

Heimild er í einkamálalögunum að sækja um leyfi til áfrýjunar beint úr héraði til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal ekki veitt nema brýn þörf sé á skjótri úrlausn réttarins um efnið og að niðurstaðan geti verið fordæmisgefandi eða haft almenna eða verulega samfélagslega þýðingu. Þá má ekki standa til að leiða vitni fyrir dóminn. Rétturinn taldi þau skilyrði uppfyllt í máli þessu.

Þetta er í fyrsta sinn sem heimildinni er beitt en áður hafði verið látið á hana reyna í skaðabótamálum landsréttardómaraefnanna Eiríks Jónsonar og Jóns Höskuldssonar gegn ríkinu. Þar var því hafnað.