Íbúðalánasjóður hefur selt 584 eignir frá áramótunum 2007/2008. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir janúar.

Þar má einnig sjá að sú þróun heldur áfram að uppgreiðslur lánþega séu hærri en ný útlán. Heildarútlán í janúar námu 960 milljónum króna en uppgreiðslur námu 1,5 milljarði króna.

Mikið um vanskil

Vanskil útlána hefur farið lækkandi og lækkuðu nú sjötta mánuðinn í röð hjá einstaklingum. Segir í skýrslunni að þetta sé ánægjuleg þróun. Í lok janúar voru einstaklingar með um 4,9 milljarða króna í vanskilum. Lánavirði þeirra lána sem var í vanskilum var um 88,5 milljarðar króna sem er um 13,4% af útlánum sjóðsins. Samtals eru 4.752 heimili í vanskilum við sjóðinn.

Vanskil lögaðila námu alls um 2,7 milljarði króna sem er 22,2% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila.