Á þessu ári hafa uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði verið hærri en sem nemur útlánum sjóðsins. Viðskiptavinir virðast hafa notað  eigið sparifé til að létta á skuldabyrði eða endurfjármagnað húsnæðislán með lánum annarra fjármálafyrirtækja.

Sífellt fleiri viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs hafa kosið að greiða upp lán sín hjá sjóðnum á undanförnum mánuðum. Á árinu 2011 voru útlán hærri en uppgreiðslur en eftir áramót snérist þróunin við. Í maí voru uppgreiðslur einum milljarði hærri en útlán sjóðsins.
Þetta hefur meðal annars í för með sér að Íbúðalánasjóður hefur hætt við skuldabréfaútgáfur auk þess sem óvíst er með þróun á vaxtamun á milli skuldabréfaútgáfu og útlána sjóðsins. Með auknum uppgreiðslum eru allar líkur á að vaxtamunurinn fari minnkandi
og geti jafnvel orðið neikvæður.

Að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, geta uppgreiðslur haft áhrif á vaxtamun sjóðsins. Miklu skiptir af hvaða tagi lánin eru sem verið er að greiða upp. Ef um er að ræða lán án uppgreiðsluþóknunar, sem jafnan bera hærri vexti, þá lækkar meðalútlánavextir sjóðsins og þar með minnkar vaxtamunur á milli útlána og þeirra vaxta sem sjóðurinn fjármagnar sig  á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.