*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 4. desember 2020 15:21

Uppgreiðsluþóknun ÍL-sjóðs ólögmæt

Uppgreiðsluþóknun ÍL-sjóðs á láni frá árinu 2008 er ólögmæt, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ákvæði gjaldskrár ógagnsæ.

Ritstjórn
Verði niðurstöðu dómsins ekki hnekkt á æðri dómstigum gæti kostnaður ÍL-sjóðs, og þar með hins opninbera, orðið gríðarlegur.
Haraldur Jónasson

Uppgreiðsluþóknun ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóður) á láni frá árinu 2008 var ólögmæt, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag.

Á þeim tíma sem lánið var tekið voru í gildi lög nr. 44/1998 um húsnæðismál, með síðari breytingum. Í lögunum ákvæði sem gerði ráð fyrir að félagsmálaráðherra gæti heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa lægra vaxtaálag gegn því að afsala sér rétti til þess að greiða upp lán eða aukaafborganir án þóknunar.

Í reglugerðinni skyldi kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður gæti áskilið sér ef lántaki, sem afsalað hefði sér umræddum rétti, hygðist greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun gæti ekki numið hærri fjárhæð en sem næmi kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.

Í þágildandi reglugerð um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs kom fram að þóknun vegna uppgreiðslu skuldar og vegna aukaafborgana skyldi reiknist af mismun á vaxtastigi ÍLS-veðbréfsins sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga, eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða.

Þegar stefnendur greiddu lánið sem deilt var um upp þann 12. desember 2019 voru vextir nýrra lána 4,2%, eða 1,3% lægri en vextir á láni stefnenda og voru þau því krafin um greiðslu þóknunar sem nam 3.764.811 krónum.

Ákvæði gjaldskrár ógagnsæ

Að mati dómsins getur ofangreind reglusetning um uppgreiðslugjald í reglugerðum um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs ekki verið grundvöllur að löglegri álagningu slíkra gjalda.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að dómurinn telji „hvorki kveðið á um hlutfall þóknunar sem stefndi geti áskilið sér ef lántaki, sem afsalað hefur sér rétti til uppgreiðslu, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma né tryggt að slík uppgreiðsluþóknun nemi ekki hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði stefnda vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Ákvæði gjaldskrárinnar um uppgreiðsluþóknun er bæði óvenjulegt á íslenskum lánamarkaði og ógagnsætt og erfitt getur verið fyrir almenna lántakendur að átta sig á með hvaða hætti uppgreiðsluþóknunin er ákvörðuð og hversu há hún getur orðið. Fjárhæð þóknunarinnar tekur breytingum eftir því sem vextir á markaði breytast og er hún því að því leyti vaxtaafleiða".

Var ÍL-sjóði gert að greiða stefnendum 3.764.811 krónur, sömu fjárhæð og þóknunin nam, ásamt dráttarvöxtum frá 12. janúar 2020, auk þriggja milljóna í málskostnað en málið dæmdu Ástráður Haraldsson og Helgi Sigurðsson, héraðsdómarar, ásamt Hersi Sigurgeirssyni, sérfróðum meðdómara.

Fjölmörg lán IL-sjóðs lúta sömu skilmálum um uppgreiðsluþóknun og lánið sem mál þetta varðar. Verði niðurstöðu þessari ekki hnekkt á æðri dómstigum gæti kostnaður ÍL-sjóðs, og þar með hins opinbera, orðið gríðarlegur.