Uppgreiðslur Íbúðalánasjóðs hafa aukist verulega á síðustu mánuðum samhliða vaxandi veltu á fasteignamarkaði. Þetta kemur fram í DV í dag. Útlit er fyrir að uppgreiðslur verði samtals nærri 40 milljörðum á árinu 2015, en það er 50% aukning frá fyrra ári.Heildarútláns sjóðsins á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs námu hins vegar einungis 5,6 milljörðum króna.

Ljóst er því að ekki er að draga úr uppgreiðsluvanda Íbúðalánasjóðs, þ.e. vandi sjóðsins að hann geti ekki ráðstafað uppgreiðslum viðskiptavina til að borga inn á eigin skuldir. Uppgreiðsluvandinn er þvert á móti orðinn meiri en áður. Uppgreiðslur jukust frá og með júlí á síðasta ári. Uppgreiðslur frá júlí til nóvember námu 23 milljörðum samanborið við 12,5 milljarða árið áður. Uppgreiðslur í nóvember námu 5,8 milljörðum og hafa aldrei verið meiri í einum mánuði. Uppgreiðslur hafa haft þau áhrif að sjóðurinn hefur setið uppi með umtalsvert lausafjár á mun lægri vöxtum en það sem sjóðurinn þarf að greiða af skuldum.

Íbúðalánasjóður hefur fengið yfir 50 milljarða króna frá ríkissjóð á síðustu árum til að mæta taprekstri sjóðsins. Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir 1,3 milljarða fjárframlagi.