Frá því er greint á vef fréttablaðsins Bæjarins Besta (BB) á Ísafirði að ísfirska fyrirtækið 3X-Technology landaði þremur samningum á sjávarútvegssýningu í Brussel á dögunum, að andvirði samtals tæplega 200 milljónum króna. Blaðið hefur eftir Karli Ásgeirssyni, rekstrarstjóra fyrirtækisins, að þetta hafi verið stærsti dagur í sögu fyrirtækisins.

„Svo var samningur um karakerfi við fyrsta alvöru kjötvinnslufyrirtækið sem við förum inn í. Það er í Bretlandi. Síðan er ein af þessum sölum uppfærsla á rækjuverksmiðju, en við ætlum að smíða flottustu rækjuverksmiðju í heimi“ hefur BB eftir Karli.

„Það er mjög ánægjulegt fyrir Ísland að menn skuli standa í svona framkvæmdum og þora og trúa á þennan iðnað sem hefur legið í dvala undanfarin ár. En botninum hlýtur að vera náð og ég held að ef menn horfa fram á veginn og taka svona stór stökk, ætti að vera hægt að rétta iðnaðinn við.“