Steinull hf., sem líkt og nafnið gefur til kynna starfrækir steinullarverksmiðju, hagnaðist eftir skatta um tæplega 188 milljónir króna á síðasta ári. Tekjur félagsins lækkuðu að vísu um 1% milli ára, námu 1.598 milljónum, en afkoman batnaði og var langt umfram væntingar.

Meðan tekjur drógust saman gerðu rekstrargjöld það einnig. Námu þau 1.326 milljónum og drógust saman um 23 milljónir króna. Munar þar mestu um lækkun hráefniskostnaðar um rúmlega 50 milljónir króna. EBITDA félagsins stóð nánast í stað milli ára, nam tæpum 230 milljónum króna.

Eignir félagsins voru metnar á 1.147 milljónir króna í ársbyrjun, þar af voru viðskiptakröfur 292 milljónir og handbært fé 104 milljónir, og eigið fé jákvætt um 699 milljónir króna. Óráðstafað eigið fé var 589 milljónir. Langtímaskuldir voru 139 milljónir og skammtímaskuldir 309 milljónir.

Í athugasemdum ársreikningsins segir að áhrifa faraldursins hafi ekki gætt í miklum mæli í starfsemi félagsins „sem blessunarlega þurfti ekki að skerða starfsemi og framleiðslu á neinn hátt og lítil fjarvist hjá starfsmönnum út af faraldrinum“. Hertar hreinlætis- og sóttvarnaraðgerðir hefðu hins vegar haft áhrif til hækkunar gjalda.

„Byggingamarkaðurinn innanlands hélst merkilega stöðugur, þrátt fyrir víðtæk áhrif faraldursins og alveg ljóst að aðgerðir ríkisvaldsins og minni ferðalög landans hafa verið hvati til viðhaldsframkvæmda umfram undanfarin ár,“ segir í ársreikningnum. Markaðir erlendis hafi brugðist við á mismunandi hátt, til að mynda hafi uppsveifla í Færeyjum bætt upp fyrir niðurtúr í Bretlandi. Eins og staðan er núna telur stjórn litlar líkur á öðru en að framtíðarhorfur félagsins séu góðar.

Á aðalfundi var samþykkt tillaga um að greiða 175 milljónir króna í arð til eigenda félagsins en það er 65 milljónum króna meira en í fyrra. Stærsti hluthafi félagsins er Kaupfélag Skagfirðinga, sem á helming af útgefnum hlutum, en Húsasmiðjan og Byko skipta afgangnum bróðurlega á milli sín.