Upphaf fasteignafélag tapaði rúmlega 1,1 milljarði króna á síðasta ári og versnaði afkoma félagsins um rúmlega 1,4 milljarða króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Upphaf er stærsta eign fagfjárfestingarsjóðsins GAMMA:Novus en greint var frá því í gær að staða sjóðsins væri mun verra en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Gengi sjóðsins hafði verið 183 um mitt þetta ár en var í gær fært niður í 2. Voru ástæður þess meðal annars þær að byggingarkostnaður hafi verið miklu hærri en menn ætluðu sér, lengri tíma tæki að selja eignir en gert hafði verið ráð fyrir auk þess sem verkefni hafi ekki verið komin jafnlangt á veg og haldið var.

Tekjur Upphafs námu 3.817 milljónum króna á síðasta ári og jukust um rúmlega 73,7% milli ára. Kostnaðarverð seldra fasteigna var hins vegar hærra en tekjurnar og nam 3.844 milljónum króna og jókst um 95,7% milli ára. Framlegð félagsins var því neikvæð um 27 milljónir króna en var jákvæð á síðasta ári um 233 milljónir.

Rekstrartap fyrir matsbreytingar nam 326 milljónum króna og jókst um 269 milljónir milli ára. Matsbreytingar fjárfestingareigna voru neikvæðar um 220 milljónir á síðasta ári en voru jákvæðar um 899 milljónir króna árið á undan. Félagið skilaði því rekstrartapi fyrir fjármagnsliði upp á 546 milljónir króna en rekstarhagnaður árið á undan nam 842 milljónum króna.

Eignir félagins námu 12,8 milljörðum króna í árslok og hækkuðu um 1,8 milljarða milli ára. Þar af námu verkbirgðir rúmlega 10 milljörðum króna sem hækkuðu um 4,1 milljarð milli ára.  Eigið fé var 80 milljónir í lok árs en við það bætist víkjandi lán við hluthafa upp á 2.012 milljónir sem telst ígildi eigið fjár. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 16,3% í árslok en var 27,9% í árslok 2017.