Landsvirkjun hefur ákveðið að óska eftir tilboðum í nokkra verkhluta vegna upphafsframkvæmda við Búðarhálsvirkjun: vinnu við gröft jarðganga, skurða og vatnsþróar og tilheyrandi styrkingu með sprautusteypu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun en útboðið verður auglýst formlega á morgun, fimmtudag, og tilboð verða opnuð 11. mars 2010.

Fram kemur í tilkynningunni að gert er ráð fyrir að unnið verði að undirbúningsverkunum á sumri komanda og í haust og að þeim verði lokið að fullu fyrir 1. desember 2010. Kostnaður við þau er áætlaður á bilinu 600-800 milljónir króna, að meðtalinni hönnun, verkumsjón og eftirliti. Takist samningar um orkusölu og fjármögnum Búðarhálsvirkjunar verða helstu áfangar framkvæmdarinnar boðnir út síðar á árinu 2010.

Búðarhálsvirkjun verður um 80 MW (uppsett afl) og orkugetan allt að 585 GWst á ári, samkvæmt tilkynningu Landsvirkjunar. Til samanburðar má geta þess að uppsett afl Vatnsfellsvirkjunar er 90 MW og orkugeta allt að 430 GWst á ári.Stöðvarhús Búðarhálsvirkjunar verður ofanjarðar, grafið inn í hlíð Búðarháls við Sultartangalón.

Inntakslón Búðarhálsvirkjunar, Sporðöldulón, verður myndað með rúmlega tveggja km langri stíflu yfir Köldukvísl, skammt ofan ármóta Köldukvíslar og Tungnaár en neðan Hrauneyjarfossstöðvar.  Stíflan verður hæst um 24 metrar og flatarmál lónsins um 7 ferkílómetrar.

Þá kemur fram að heildarkostnaður við Búðarhálsvirkjun er áætlaður um 26,5 milljarðar króna á verðlagi í janúar 2010, án fjármagnskostnaðar og án virðisaukaskatts.