Svissneski fjárfestingarbankinn UBS er á meðal þeirra þriggja alþjóðlegu banka sem Actavis hefur fengið til að sölutryggja yfirtökufjármögnun á samheitalyfjaeiningu þýska lyfjafyrirtækisins Merck, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ekki hefur tekist að staðfesta upphæð lánsins, sem mun gefa til kynna hve mikið Actavis er tilbúið að greiða fyrir eininguna.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, greindi frá því á föstudaginn síðastliðinn að fyrirtækið hefði áhuga á því að taka þátt í uppboði á einingunni. Actavis er annað samheitalyfjafyrirtækið sem lýsir formlega yfir áhuga, en indverski keppinauturinn Ranbaxy hefur einnig greint frá áhuga sínum.

Talið er að mikil samkeppni verði um félagið og reikna sérfræðingar með að hugsanlegt kaupverð geti verið á bilinu fjórir til fimm milljarðar evra, sem samsvarar um 356-445 milljörðum íslenskra króna. Í byrjun árs reiknaði viðskiptablaðið Financial Times Deutchland út að fjárfestingageta Actavis væri um 3,5 milljarðar evra. Róbert sagði á fjárfestafundi í síðustu viku að líklegt sé að fjárfestingasjóðir geri tilraun til að kaupa eininguna og forstjóri Ranbaxy sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna að nokkrir sjóðir hefðu þegar viðrað hugmyndir um hugsanlegt samstarf.

Actavis hefur fjármagnað nýlegar yfirtökur með sambankalánum. UBS, JP Morgan og HSBC sölutryggðu í fyrra lánsfjármögnun til að styðja við kauptilboð félagsins í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, sem varð síðar tekið yfir af bandaríska fyrirtækinu Barr Pharmaceuticals fyrir um 175 milljarða króna. Actavis hefur einnig unnið með hollenska bankanum ABN Amro, Bank of America, franska bankanum BNP Paribas og þýska bankanum WestLB.

Mikil samþjöppun hefur verið hjá samheitalyfjaframleiðendum að undanförnu enda er samkeppnin gríðarlega hörð. Þar sem að framleiðsla og þróun á frumlyfjum er í eðli sínu ólík telja flestir það erfitt fyrir fyrirtæki að standa í framleiðslu á báðum tegundum eins Merck gerir.

Í fyrra keypti Merck svissneska líftæknifyrirtækið Serano og var talið að með þeim kaupum myndi fyrirtækið styrkja stöðu sína við þróun frumlyfja. Kaupin eru talin ástæða þess að Merck vill selja samheitalyfjaframleiðlu og að stjórendur þess vilji styrkja stöðu sína gegn öðrum fyrirtækjum á frumheitalyfjamarkaðnum.