Lítil og meðalstór fyrirtæki stóðu undir rúmlega tveimur þriðju greiddra heildarlauna í einkageiranum árið 2017. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Óttars Snædal, hagfræðings á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, á fundi á vegum Litla Íslands sem bar yfirskriftina Geta litlu fyrirtækin hækkað kaupið? Lítil og meðalstór fyrirtæki eru skilgreind sem fyrirtæki með starfsmannafjölda á bilinu 2-249 en samtals voru þau 10.121 talsins í lok síðasta árs.  Hjá þessum fyrirtækjum starfa um 100 þúsund starfsmenn á meðan starfsmenn stórra fyrirtækja með 250 starfsmenn eða fleiri voru um 40 þúsund.

Greiddu 552 milljarða

Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu á síðasta ári 552 milljarða króna í heildarlaunagreiðslur sem eins og fyrr segir standa undir 68% af greiddum launum í einkageiranum. Þar af greiddu örfyrirtæki með 2-9 starfsmenn 126 milljarða, lítil fyrirtæki með 10-49 starfsmenn 216 milljarða og meðalstór fyrirtæki með 50-249 starfsmenn 210 milljarða. Á sama tíma greiddu stór fyrirtæki með yfir 250 starfsmenn 257 milljarða króna í heildarlaun árið 2017.

Árið 2010 námu heildargreiðslur lítilla og meðalstórra fyrirtækja 285 milljörðum króna og hafa því aukist um 93% milli 2010 og 2017. Skýrist þessi aukning bæði af launaþróun síðustu ára en einnig af auknum umsvifum þessara fyrirtækja sem hefur kallað á aukinn fjölda starfsmanna. Mest var aukningin hjá litlum fyrirtækjum þar sem heildarlaunagreiðslur jukust um 110 milljarða eða 104%, næstmest var aukningin hjá millistórum fyrirtækjum þar sem hún nam 105 milljörðum sem er tvöföldun frá 2010. Þá voru heildarlaunagreiðslur örfyrirtækja 51 milljarði hærri árið 2017 sem er aukning um 69%.

Þó að aukning í heildarlaunagreiðslum hafi verið minnst hjá örfyrirtækjum bæði í heild og hlutfallslega, var hækkun meðalárslauna milli 2010 og 2017 hæst hjá þeim fyrirtækjum eða 52%. Hjá litlum fyrirtækjum var hækkunin 48% og átti sú hækkun einnig við um meðalstór fyrirtæki. Á sama tíma var hækkun meðalárslauna hjá stórum fyrirtækjum 39%. Til samanburðar hefur nafnlaunahækkun á hinum Norðurlöndunum verið um 18% milli 2010 og 2017.

Launakostnaður vegur þungt

Þegar litið er á launakostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hlutfall af rekstrartekjum kemur í ljós að hlutfallið er almennt hærra en hjá stórum fyrirtækjum. Hjá örfyrirtækjum er það 42%, hjá litlum fyrirtækjum er það 43% og 39% hjá meðalstórum fyrirtækjum á meðan hlutfallið er 35% hjá stórum fyrirtækjum með yfir 250 starfsmenn. Að sögn Óttars Snædal gefa þessi gögn ákveðna vísbendingu um að launakostnaður vegi þyngra hjá minni fyrirtækjum. Að sama skapi þýði það að launahækkanir muni hafa meiri áhrif á þessi fyrirtæki. „Það geta verið ýmsar skýringar á því hvers vegna launakostnaður er hærri hjá minni fyrirtækjum þar sem það er misjafnt eftir eðli fyrirtækjanna hversu hátt hlutfall launakostnaður er af rekstri. Það er hins vegar þannig að mikið af þjónustufyrirtækjum eru minni fyrirtæki og þar með er launakostnaður hærra hlutfall.

Fyrir fyrirtæki sem eru í eðli sínu með háan launakostnað þá munu launahækkanir koma illa við þau. Það er erfitt að sjá að fyrirtæki með hátt launahlutfall geti gert eitthvað annað en að skila launahækkunum út í verðlagið eða segja upp fólki. Það eru búnar að eiga sér stað miklar hagræðingar á síðustu árum meðal annars vegna mikilla launahækkana. Það eru einfaldlega takmörk fyrir því hve mikið er hægt að hagræða án þess að hækka verð eða segja upp fólki. Við sjáum það líka að það eru blikur á lofti í hagkerfinu. Reglulega berast fréttir  af uppsögnum í fyrirtækjum og það virðist sem hagræðingaraðgerðirnar séu í auknum mæli að snúa að uppsögnum.

Þá verður einnig að líta til þess að launahlutfall á Íslandi er í sögulegu hámarki og hæst á Norðurlöndunum. Það segir sig nokkurn veginn sjálft að hlutfallið getur ekki hækkað út í hið óendanlega þar sem fyrirtækin geta ekki staðið undir því.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .