Fyrsta upplag Símaskrárinnar og Garðarshólma, myndasögu Hugleiks Dagssonar, 100.000 eintök, hefur að mestu klárast hjá Já á innan við viku frá útgáfudegi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já.

„Áhuginn á bókinni hefur komið mjög á óvart og eru þetta bestu viðtökur sem Símaskráin hefur fengið frá upphafi,“ segir Guðrún María Guðmundsdóttir, ritstjóri Símaskrárinnar í tilkynningunni.

Alls er Símaskráin prentuð í 200.000 eintökum og von er á seinni sendingunni, 100.000 eintökum, um miðjan júní.

„Símaskráin hefur aldrei áður farið svona hratt út, venjulega skiptir okkur ekki neinu máli að fá skrárnar sendar til landsins í tveimur sendingum. Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum, við erum þakklát fyrir það en erum á sama tíma mjög leið yfir því að geta ekki afgreitt alla strax. Við biðjum fólk um að sýna okkur þolinmæði og við munum kynna það vel þegar seinni sendingin kemur til landsins um miðjan júní,“ segir Guðrún María.

Símaskráin kom út sl. miðvikudag, 28. maí, og áritaði Hugleikur Dagsson fyrstu 100 eintökin.

Í Símaskránni er myndasagan Garðarshólmi eftir Hugleik og teygir hún sig yfir megnið af bókinni. Meðal persóna og leikenda í sögunni eru fjöll, jólasveinn, kind, villikýr, Nylon, Sæmundur fróði, jólakötturinn og lítill drengur sem er sendur í sveit.