Ráðstefnuhaldarar Inspirally WE 2015 jafnréttisráðstefnunnar vilja ekki veita upplýsingar um hve margir séu skráðir á ráðstefnuna á vegum ráðuneyta eða opinberra stofnana.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, fjölmiðlafulltrúi ráðstefnunnar, að ráðstefnuhaldarar taki saman upplýsingar um hver greiði aðgangseyri fyrir hvern og einn ráðstefnugest, en hins vegar vilji þeir ekki veita upplýsingar um hve marga miða hið opinbera greiði fyrir.

Ráðuneytum verði þó veittur afsláttur af almennu miðaverði, sem séu 950 evrur á hvern miða, eða jafnvirði rúmlega 140.000 íslenskra króna. Hún segir að enginn opinber stuðningur sé við ráðstefnuna sem sé alfarið fjármögnuð með framlögum einkaaðila.

Ráðstefnan var haldin 18. - 19. júní í Hörpu. Viðfangsefnið er hvernig megi loka kynjabilinu og leysa úr læðingi hagvaxtartækifæri með aukinni þátttöku kvenna. Meðal fyrirlesara voru Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Dr. Irene van Stavere, prófessor frá Erasmus háskóla.