Mannréttindadómstóll Evrópu fékk á föstudag sendar upplýsingar um fjármálaumsvif dómara við Hæstarétt Íslands á árunum fyrir fall íslenska bankakerfisins árið 2008. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Upplýsingarnar eru hluti af málsskjölum sem Ólafur Ólafsson og þrír fyrrverandi stjórnendur Kaupþings banka, þeir Sigurður
Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, sendu MDE vegna umfjöllunar dómstólsins um Al Thani málið svokallaða. Telja þeir að brotið hafi verið á réttindum þeirra, bæði við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Kæra Ólafs og fyrrum stjórnenda Kaupþings til MDE snýr meðal annars að vanhæfni dómara sem dæmdu málið í Hæstarétti í febrúar 2015. Í bréfinu er bent á nýjar upplýsingar um hagsmunatengsl dómara sem komu fram í umfjöllun íslenska fjölmiðla í desember í fyrra. „Í kærunni kemur fram að Hæstiréttur Íslands hafi sýnt dómgreindarleysi við að meta hugsanlega hagsmunaárekstra í dómsmálum á hendur fyrrverandi stjórnendum þriggja stærstu viðskiptabankanna; Kaupþings, Glitnis og Landsbankans. Í öllum málum hefði verið tekist á um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik sakborninga og þau því tengd innbyrðis,“ er einnig tekið fram.

„Nýleg fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi hefur leitt í ljós að sumir dómarar sem sátu í Hæstarétti í þessum málum höfðu persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, í sumum tilvikum umtalsverðra hagsmuna, vegna bankanna í aðdraganda falls þeirra árið 2008,“ segir í kærunni til Mannréttindadómstólsins, sem tekur nú málið til áframhaldandi meðferðar.

Hæstiréttur tilkynnti nýverið um hagsmunatengsl dómara við réttinn og birti þær opinberlega á heimasíðu sinni fyrr í þessum mánuði.

Í bréfi lögmanns kærenda fyrir Mannréttindadómstólnum kemur fram að beðið sé eftir frekari upplýsingum sem varði hæfi dómara meðal annars frá opinberum aðilum. Hæstiréttur og nefnd um dómarastörf hefur verið sent erindi, þar sem óskað er eftir ítarlegra upplýsinga um hagsmunatengsl dómara, bæði í Hæstarétti og héraðsdómi.

Kæra var send til Mannréttindadómstólsins í byrjun ágúst 2015 þar sem að kom fram rökstuðningur þess efnis að brotið hefði verið á réttindum sakborninga í fjölmörgum liðum, segir einnig í tilkynningunni. Þar kemur jafnframt fram að í kjölfarið ákvað MDE að taka til frekari skoðunar fjögur atriði úr kærunni og óskaði eftir skriflegum svörum frá íslenska ríkinu varðandi vanhæfni dómara, aðgang sakbornina að gögnum, það að Al Thani var ekki boðaður í þinghaldið og að brotið hefði verið á sakborningum með því að hlera símtöl þeirra við lögmenn sína.

„Afrit af svari ríkisins til MDE var sent lögmönnum sakborninganna 17. nóvember 2016 þar sem athugasemdir innanríkisráðuneytisins, sem svarar fyrir hönd íslenska ríkisins, voru settar fram. Þeim athugasemdum hefur verið svarað og bent á ónákvæmni og beinlínis rangfærslur í málflutningi ríkisins.

Málið er nú til áframhaldandi meðferðar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu,“ segir að lokum í tilkynningunni.