„Við ætlum að gera þetta að öflugu félagi sem stendur vörð um hagsmuni almannatengla á Íslandi og lyfta félaginu upp. Við stefnum til dæmis á að fá erlenda fyrirlesara sem eru sérfræðingar í almannatengslum,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir sem var kosin formaður Almannatengslafélags Íslands á aðalfundi félagsins í dag kl. 12.

Svanhvít starfar sem upplýsingafulltrúi Wow air og tekur við af Andrési Jónssyni. Svanhvít er með meistaragráðu í almannatengslum frá University of Westminster í Bretlandi.

Ný stjórn var einnig kosin á fundinum: Eva Dögg Þorgeirsdóttir var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur eru Lovísa Lilliendahl og G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, Berghildur Erla Bernharðsdóttir deildarstjóri kynningar og markaðsmála hjá Listasafni Reykjavíkur, Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu og Líney Inga Arnórsdóttir verkefnastjóri hjá Íslandsstofu.

Almannatengslafélag Íslands var stofnað þann 27. september 2001 og vinna félagar þess margvísleg störf og eru starfsheitin mismunandi, t.d. upplýsingafulltrúi, almannatengill, ráðgjafi og svo framvegis. Sumir vinna á sérstökum almannatenglastofum, aðrir fyrir einstök fyrirtæki, félög eða stofnanir. Enn aðrir vinna sjálfstætt. Talið er að almannatenglar á Íslandi séu nú hátt í fjögur hundruð og hefur þeim fjölgað mikið á síðustu árum.