Kauphöll Íslands er að skoða alla þætti sem snúa að upplýsingagjöf um málefni Eimskipafélagsins undanfarin misseri, að því er fram kom í samtali Viðskiptablaðsins við Þórð Friðjónsson, forstjóra Kauphallarinnar, í gær. „Við horfum einfaldlega til allra átta. Það er verið að skoða alla þessa þætti sem snúa að okkur,“ sagði Þórður og sagðist hvorki vilja tjá sig um viðbrögð við þeim atriðum sem fram komu í bréfi Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra Eimskipafélagsins, til Magnúsar Þorsteinssonar, fyrrverandi stjórnarformanns, en Viðskiptablaðið hefur rakið efni þess bréfs, né um aðra afmarkaða þætti málsins.

Þórður sagði að þessi athugun væri margbrotið verkefni og vildi ekki tímasetja hve langan tíma hún tæki. Margir snertifletir væru milli Kauphallar og Fjármálaeftirlitsins í þessu sambandi og forræði flestra mála væri á hendi Fjármálaeftirlitsins. Þórður var einnig spurður um ástæður þess að Kauphöllin tók Eimskipafélagið af athugunarlista strax og fyrir lá yfirlýsing Björgólfsfeðga um að félli ábyrgðin á félagið myndu þeir kaupa kröfuna og fresta gjalddögum gagnvart Eimskipafélaginu.

Þórður sagði að fyrirtækið hefði verið sett á athugunarlista vegna þessarar ábyrgðar og síðan hefði komið yfirlýsing sem menn hefðu metið að væri nægilega skýr til þess að hægt væri að taka félagið af athugunarlista. „Það er alltaf matsatriði,“ sagði Þórður um tímasetninguna og sagði að Kauphöllin hefði ekki séð tilefni til þess að setja félagið á athugunarlista á ný vegna þess sem rætt hefði verið og ritað um málefni Eimskipafélagsins undanfarið.