Forráðamenn Terra Securities, sem er fjárfestingabankaarmur Terra Gruppen, sem er leiðandi fjármálaafl í Noregi, tilkynntu í gær að þeir hygðust óska eftir gjaldþroti í kjölfar þess að yfirvöld drógu til baka leyfi þess til fjárfestingabankastarfsemi. Málið tengist ónógri upplýsingagjöf varðandi stöðutöku fjögurra sveitarfélaga í flóknum fjármálagjörningum sem síðar hrundu í verði.

Aðdragandi málsins er sá að Terra Securities seldi í sumar fjórum bæjarfélögum í Noregi flókna fjármálagjörninga, sem höfðu tengingar við bandaríska fasteignamarkaðinn, fyrir um tæpar 100 milljónir Bandaríkjadala. Fjármálagjörningarnir voru settir saman af Citigroup og hafði Terra Securities milligöngu um að sveitarfélögin Rana, Narvik, Hattefjelldal og Hemnes tóku í þeim stöðu. Í kjölfar hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán hefur verðmæti fjármálagjörninganna hríðfallið.

Nánar er fjallað um Terra í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.