Ákvörðun um það hvort upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum erlendis eru keyptar á að vera alfarið á valdi skattayfirvalda, en ekki stjórnmálamanna. Þetta sagði Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, ráðuneytisstjóri og fyrrverandi aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, í Speglinum á Rúv í kvöld.

Hann sagði það reglu í siðuðum ríkjum að skattayfirvöld séu sjálfstæð.

Greint hefur verið frá því að embætti skattrannsóknarstjóra hafi fengið send sýnishorn af gögnum sem bendi til þess að hundruð Íslendinga hafi gerst sekir um skattaundanskot í gegnum skattaskjól.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að til greina komi að kaupa gögn af þessu tagi, en að tryggja þurfi að það sé gert með lögmætum hætti.