Undir lok síðasta mánaðar sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, að kjaradeilan í Straumsvík snerist ekki um verktakavæðingu, eins og forsvarsmenn Rio Tinto hafa sagt, heldur raforkusamninginn við Landsvirkjun. Sá samningur var undirritaður árið 2010 og gildir til ársins 2036. Vilhjálmur fullyrðir að raforkan sem seld sé til Straumsvíkur, samkvæmt þessum nýlega samningi, sé 30% dýrari en í Kanada.

„Þetta er hið raun­veru­lega vanda­mál, Lands­virkj­un er að slátra mjólk­ur­kúnni sinni með því að bjóða ekki sam­keppn­is­hæft verð og býðst er­lend­is og starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins eru gerðir af blóra­böggl­um,“ skrifaði Vilhjálmur.

Á blaðamannafundi hjá Landsvirkjun í morgun var Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, spurður út í ummæli Vilhjálms. Hörður segir að umræðan undanfarið um raforkuverð litist af því að nú séu í gangi samningaviðræður við Norðurál á Grundartanga um nýjan raforkusamning. Hann segir að þegar jafn miklir hagsmunir séu í húfi og raun ber vitni sé öllum meðulum beitt.

„Maður er hugsi yfir þessum skrifum og þeim upplýsingum sem þau byggja á," segir Hörður. „Upplýsingarnar sem hann [Vilhjálmur] hefur koma frá Norðuráli. Í sumum tilfellum eru þær rangar og oft villandi."

Hörður segir að forsvarsmenn Rio Tinto hafi aldrei nefnt að raforkusamningurinn væri óhagstæður og ekki heldur að kjaradeilan snúist um samninginn. Þvert á móti hafi þeir ítrekað sagt að deilan súist um verktöku.

Í byrjun vikunnar hélt Vilhjálmur áfram að fjalla um raforkusamninga Landsvirkjunar og þá í tengslum samningaviðræður Landsvirkjunar og Elkem á Grundartanga.

„... í þessu tilfelli er einungis verið að tala um viðbótarorku þá er rétt að taka það fram að bæði Elkem Ísland og Norðurál eru með lausa raforkusamninga frá árinu 2019 og ljóst miðað við þessar staðreyndir að Landsvirkjun er að óska eftir þannig verðum á raforkunni að fyrirtækið treystir sér ekki til þess að ganga frá samningi. Þá má vera ljóst að framtíð stóriðjureksturs, ekki bara hjá Elkem Ísland heldur öðrum stóriðjufyrirtækjum, er stefnt í stórhættu."