Advania hefur tekið að sér rekstur og hýsingu upplýsingakerfa Reykjalundar. Kerfin eru nú vöktuð allan sólarhringinn og upplýsingaöryggi hefur verið eflt til muna.

Öll upplýsingakerfi Reykjalundar hafa nú verið flutt í gagnaver Advania þar sem þau eru keyrð á öflugum búnaði. Því fylgir að sérfræðingar Advania vakta kerfin allan sólarhringinn og tryggja uppitíma þeirra. Um 200 starfsmenn Reykjalundar fá nú tölvuaðstoð frá sérfræðingum Advania.

Upplýsingaöryggi hefur verið eflt enda þarf Reykjalundur að standast ýtrustu kröfur um persónuvernd. Starfsmenn Reykjalundar eiga í samskiptum við stofnanir á borð við Landlækni og Sjúkratryggingar um sjúklinga og því þarf öryggi gagna að vera með besta móti.

Nettengingar við Reykjalund hafa verið stækkaðar og netöryggið eflt. Þá verður Advania ráðgefandi í tæknilegri framþróun Reykjalundar.

„Mikill vöxtur hefur verið í alrekstrarþjónustu Advania á undanförnu ári þar sem sífellt fleiri fyrirtæki sjá hag sinn í því að fela sérfræðingum Advania að annast upplýsingatæknimál sín. Advania hefur fjárfest umtalsvert í uppbyggingu á þjónustukerfum og viðskiptavinir okkar njóta ávinningsins af því með hagkvæmara og öruggara rekstrarumhverfi fyrir sín tölvukerfi,“ segir Sigurður Sæberg Þorsteinsson framkvæmdastjóri rekstrarlausna Advania.