Hagfræðideild Landsbankans gerir bandarísku S&P vísitöluna að umfjöllunarefni sínu í nýrri greiningu. Þar kemur meðal annars fram að S&P 500 hafi hækkað um 10,5% það sem af er ári, miðað við dagslokagildi 8. ágúst, og hafi vísitalan þá náð nýju hágildi. Upplýsingatæknigeirinn sker sig nokkuð út úr með 23% hækkun frá áramótum. Geirinn hefur langmest vægi í S&P 500 vísitöluna og hefur þar af leiðandi langmest áhrif á vísitöluna. Framlag geirans til 10,5% hækkunar S&P vísitölunnar nemur um 4,8%. Hægt er að lesa umfjöllun Hagfræðideildar Landsbankans hér.

Á árinu hafa fjórir atvinnugeirar hækkað meira en S&P vísitalan. Alls hafa þeir fjórir atvinnugeirar sem hafa staðið sig betur en S&P 500 vísitalan skilað framlagi sem nemur 8,6% eða tæpum 82% af hækkun vísitölunnar. Aftur á móti hefur orkugeirinn lækkað um 13,7% og fjarskiptaþjónustugeirinn lækkað um 9,3%.

S&P 500 vísitalan inniheldur 500 stærstu fyrirtækin á markaðnum miðað við markaðsverðmæti þeirra og eru skráð í NYSE Euronext og Nasdaq OMX kauphöllunum. Fyrirtæki í henni eru talin leiðandi fyrir hagkerfið vestra, auk þess að hún nái utan um 70 til 80 prósent af markaðsvirði alls markaðarins.

Apple, Microsoft, Facebook og Ebay dráttarklárar

Miklar hækkanir hlutabréfaverðs fyrirtækja í upplýsingatæknigeiranum á borð við Apple, Microsoft, Facebook og Ebay hafa því átt mestan þátt í hækkun S&P 500 vísitölunnar á tímabilinu.

Apple er til að mynda langsamlega stærsta fyrirtækið í S&P 500 vísitölunni að markaðsvirði og er því með langmest vægi í vísitölunni eða um 3,9%. Markaðsvirði fyrirtækisins er um 827 milljarðar Bandaríkjadala. Hlutabréfaverð og markaðsvirði Apple náði nýverið nýjum hæðum.