Upplýsingatæknifyrirtækið Teris á 20 ára afmæli þriðjudaginn 10. mars eisn og fram kmeur í Viðskiptablaðinu í dag. Það var stofnað 1989 og hét upphaflega Tölvumiðstöð sparisjóðanna.

Stofnendur voru sex af stærstu sparisjóðum landsins og Lánastofnun sparisjóðanna, sem síðar fékk nafnið Sparisjóðabanki Íslands. Í dag er Teris í eigu allra sparisjóða á landinu, Sparisjóðabankans, SP-fjármögnunar, Kaupþings Líf (sem eitt sinn var í eigu sparisjóðanna) og síðan eru nokkur minni fyrirtæki sem eiga hlut í Teris.

Á árinu 2006 var ákveðið að fyrirtækið færi að sinna þjónustu út fyrir eigendahópinn og var nafni fyrirtækisins því breytt í Teris í mars 2007. Í september 2008 sameinuðust Teris og hugbúnaðarfyrirtækið Mentis, einkum vegna breyttra markaðsaðstæðna.

Sæmundur Sæmundsson forstjóri segir að í kjölfar bankahrunsins í haust hafi Teris þurft að grípa til margvíslegra ráðstafana þó ekki hafi þurft að afskrifa neinar kröfur.

„Bæði vegna þess að okkar viðskiptavinir þurftu að draga verulega saman seglin og gerðu jafnframt kröfu um að upplýsingatæknikostnaðurinn lækkaði. Við þurftum því að fara í mjög umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir, bæði við að skera niður kostnað og því miður að segja upp fólki. Hér unnu þegar mest var ríflega 180 manns að Mentis meðtöldu, en eru nú rúmlega 140 talsins.

Ég held að það sé þó alveg ljóst að kröfur eftirlitsaðila gagnvart fjármálafyrirtækjunum muni aukast mjög í framhaldinu í takt við auknar kröfur í samfélaginu. Það er því ekkert sem bendir til að vægi upplýsingatækninnar í starfsemi fjármálafyrirtækja muni minna, frekar hið gagnstæða.

Árið 2007 var eiginlega 365 daga spretthlaup þar sem menn höfðu engan veginn undan að sinna öllu því sem var í gangi. Nú erum við hins vegar komnir í langhlaupsgírinn þar sem byggt er upp til lengri tíma.”

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .