Enn eykst áhugi erlendra aðila á upplýsingum frá Kauphöllinni. Greint var frá samningi við nýja veitu, royalblue, í september og önnur erlend veita hefur nú bæst í hópinn að því er kemur fram í nýjustu Kauphallartíðindum. Nýja veitan er Liquidnet.

Kauphöllin hefur þá gert samning við 13 upplýsingaveitur víðsvegar um heiminn um dreifingu rauntímaupplýsinga.

Í frétt Kauphallartíðinda kemur fram að undirstaða verðbréfaviðskipta er stöðugt fréttastreymi og upplýsingar um verð skráðra verðbréfa. Eitt af meginhlutverkum Kauphallarinnar er að bjóða fjárfestum aðgang að gögnum úr viðskiptakerfi sínu ásamt öðrum sérsniðnum upplýsingum sem unnar eru af Kauphöllinni. Meðal markaðsupplýsinga sem Kauphöllin veitir aðgang að eru rauntímaupplýsingar af markaðnum, grunnupplýsingar verðbréfa og hinar ýmsu vísitölur.