Tölvuárás var gerð á vefsíðu auglýsingastofunnar Hvíta hússins á þriðjudag og gögnum stolið. Eftir því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag innihalda gögnin upplýsingar um þátttakendur í nokkrum gagnvirkum netleikjum sem viðskiptavinir auglýsingastofunnar hafa staðið fyrir á vefsíðum og þá aðallega á Facebook. Þar er um að ræða nöfn og símanúmer þátttakenda og í einhverjum tilvikum upplýsingar um notendanöfn þeirra á Facebook.

Svo virðist sem gögnin hafi ekki farið í dreifingu á netinu en tölvuþrjóturinn sem réðst á fyrirtækið birti á Twitter-síðu sinni lista yfir þau gögn sem hann stal. Samkvæmt færslum á síðunni virðist þrjóturinn halda að hann hafi ráðist á vefsvæði Vodafone á Íslandi.